70 ára afmæli björgunarsveitarinnar Kjölur

Björgunarsveitin Kjölur á 70 ára afmæli í dag,  29. desember 2019.  Sá dagur árið 1949 markar upphaf sögu slysavarna og björgunarstarfa á Kjalarnesi. Stofnfundur  slysavarnadeildar á Kjalarnesinu var haldinn að Klébergi  og mættu um 60 manns á fundinn.  Slysavarnadeildin beitti sér strax fyrir því að stofnuð yrði björgunarsveit innan deildarinnar og að fluglínutæki  fengist í hreppinn.  Mikill kraftur var í starfinu frá upphafi og nánast allir íbúar Kjalarnesshrepps félagsmenn. Haldið var námskeið í fyrstu hjálp, farið í leitir og þrýst á úrbætur í brunavörnum og endurbótum í  símamálum.  Í janúar 1952 var fyrsta stóra verkefni  slysavarnadeildarinnar þegar farþega- og flutningaskipið Laxfoss strandaði úti fyrir Nesvík. Giftusamlega tókst til við björgun áhafnar og farþega en skipið sökk seinna, þegar reynt var að draga það af strandstað.

Starfið lá í dvala á árunum 1960-70 en í kringum 1975 efldist björgunarsveitin með fjölgun íbúa í Grundarhverfi og varð slysavarnadeildinni yfirsterkari.  Björgunarsveitin var nefnd Kjölur og fékk seinna inni í áhaldahúsi hreppsins, þegar það var byggt 1986. Húsnæðið var nefnt Þórnýjarbúð í höfuðið á Þórnýju, dóttur Ingólfs Arnarsonar en hún var kona Helga Bjólu sem nam Kjalarnes.
Starfsemi sveitarinnar varð fyrir miklu áfalli nokkrum árum seinna þegar húsið ásamt bíl, bát og öllum búnaði brann til kaldra kola. Með mikilli vinnu og aðstoð frá öðrum björgunarsveitum og nágrönnum tókst að gera sveitina útkallshæfa aftur. Á næstu árum eftir brunann var talsverður kraftur í starfseminni, um 25 manns á útkallslista og auk þess stofnuð fjölmenn unglingadeild. Hægt var að veita aðstoð í útköllum víða um land fyrir utan verkefni innan hreppsins.  Útköll voru aðallega vegna trilla sem lentu í vandræðum við Kjalarnes  og aðstoð við rjúpnaskyttur, göngu- og skíðamenn, sem villtust af leið eða slösuðust.
Skin og skúrir hafa skipst á í starfinu en frá aldamótum hefur virkni verið stöðug og um 11 manns á útkallslista. Samstarfssamningur við Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins var gerður 2006 og er um helmingur útkalla sveitarinnar í dag vegna slysa og bráðaveikinda á Kjalarnesi og í Kjós. Önnur útköll eru aðallega leitir á landi og sjó, bæði á höfuðborgarsvæðinu en einnig í öðrum landshlutum og  útköll tengd óveðri eða ófærð.  Útköllum hefur fjölgað jafnt og þétt og eru nú um 75-80 á ári. Tækjakostur og búnaður björgunarsveitarinnar hefur breyst mikið og þróast til hins betra á þessum árum sem liðin eru frá stofnfundi,  nægir þar t.d. að nefna fjarskipti, öryggisbúnað og skjólfatnað.  Hins vegar hafa hugsjón og markmið ekkert breyst nú 70 árum síðar –  að koma í veg fyrir slys og bjarga mannslífum og verðmætum er enn í fullu gildi.  Vefhlekkur á 60 ára afmælisrit :   Kjölur 60 ára